„Hæ, hæ, hvernig líður þér í dag“ syngur Stefán Hilmarsson á plötu Rafns Jónssonar, „Ef ég hefði vængi“. Þetta lag kom upp í hugann í dag, það kallar alltaf fram hlýjar tilfinningar og um leið söknuð og minningar um góðan vin sem kvaddi allt of snemma.

Tónlistin kallar fram tilfinningar án þess að við hugsum um það. Tónlistin er græðandi. Tilfinningar eiga sér sjálfstætt líf, þær koma og fara, stundum líður okkur vel og stundum illa. Stundum hellast yfir okkur alls konar tilfinningar í einu án þess að við séum að hugsa um það.

Núna, á tímum Covid 19, þegar náttúran hefur stoppað okkur af, hefur óvissan kallað fram alls konar tilfinningar og líðan. Við erum í aðstöðu sem engan óraði fyrir, ósýnileg veira hefur sett allan heiminn úr skorðum.

Þannig virka tilfinningarnar, þær eru ósýnilegar og koma og fara án þess að spurja um leyfi. Þær stjórna líðan okkar og hegðun, oft án þess að við gerum okkur grein fyrir því.

Covid 19 hefur valdið áhyggjum, kvíða, hræðslu, óöryggi, þunglyndi, vanmætti og alls konar vanlíðan en um leið gleði, þakklæti, væntumþykju og jákvæðum tilfinningum, samtöðu og samúð. Okkur getur nefnilega liðið bæði vel og illa í einu.

Þetta er sennilega stærsti tilfinningarússíbani sem við höfum farið í. Og við keyptum okkur ekki einu sinni miða! En við getum, líkt og með Covid 19, náð stjórn á tilfinningunum. Við höfum innri úrræði, tilfinningalegt stýrikerfi sem við þurfum að kveikja á og læra á. Þá líður okkur betur.

Hversu tengd(ur) ertu tilfinningum þínum á skalanum 0 – 10 ?
(ef 0 er ótengd(ur) og 10 fullkomlega tengd(ur)). Hvaða tala kemur upp í hugann um leið og þú lokar augunum? Hvað skynjarðu þegar þú lokar augunum og beinir athyglinni inn á við?

Líkaminn er alltaf að senda okkur skilaboð en það er oft á tali hjá okkur, það er svo mikið að gera og við höldum bara áfram án þess að hlusta. Við forðumst neikvæðar tilfinningar, þær eru óþægilegar og við lokum þær inni. Þá safnast þær upp í líkamanum, það er eins og að stífla á, við fáum líkamleg einkenni og á endanum veikjumst við eða „keyrum á vegg“.

Við getum losað allar fastar tilfinningar, leyst upp neikvæðar tilfinningar, hugsanir og minningar og dýpkað jákvæðar tilfinningar. Hvernig getum við breytt líðaninni.

Með RIM, Regenerating Images in Memory eða að endurmynda minningar í minni. RIM er líkamsmiðuð umbreytingartækni sem notar úrræði sem eru til staðar í huga okkar og líkama til að losa fljótt og auðveldlega fastar neikvæðar tilfinningalegar minningar og endurmynda þær í jákvæðar.

RIM aðferðin byggir á taugavísindum og gerir þér kleift að búa til nýja tilfinningu í taugakerfinu á djúpstæðan hátt. Niðurstöður taugavísinda styðja virkni RIM með því að útskýra að heili og taugakerfi séu breytanleg.

Hér er góð útskýring á því af hverju RIM virkar

Rannsóknir sýna að RIM dregur verulega úr einkennum streitutengdra veikinda og eykur lífsgæðin (Boxwell Dissertation, Holos University, 2004).

Hvernig líður þér í dag?

Hefurðu einhvern tíma staðið þig að því að velta fyrir þér “Hvað er að mér”? “Af hverju finnst mér ég alltaf ekki nógu góð(ur)?” “Af hverju get ég ekki breytt þessari hugsun? “ “Af hverju heldur þessi hugsun um að ég sé ömurleg(ur) áfram að koma upp í hugann?” “Verður lífið ekki betra en þetta?” “Af hverju get ég ekki stjórnað tilfinningunum?” „Hvernig losna ég við kvíðann?“ „Af hverju fresta ég öllu?“

Hvaða líðan viltu breyta?

Þú getur stjórnað tilfinningunum. Þú getur breytt líðaninni og lífi þínu.

Þú getur lesið meira um RIM og pantað tíma á heimasíðunni minni, www.evaalberts.is