Lífið er ekki alltaf auðvelt, í Vikunni segi ég frá erfiðri baráttu við heilbrigðiskerfið sem brást syni mínum og allri fjölskyldunni gjörsamlega.

Ástæðan fyrir því að ég segi mína sögu í Vikunni og í metsölubókinni Women Who Rise sem er nýkomin út og hefur að geyma reynslusögur 30 kvenna (sjá eldri bloggpóst), er að styrkja og hvetja alla sem eru í sömu sporum til að gefast ekki upp, halda áfram, finna leiðir, treysta innsæinu og taka fulla stjórn á sínu lífi.

Þó að ástandið virðist óyfirstíganlegt getur það leitt mann inn á nýjar brautir. Ég er lifandi sönnun þess. Mikilvægast er að ná stjórn á tilfinningunum og hugsunum, hugsa jákvætt og fram í tímann; hvernig get ég, hvað geri ég næst, við hvern get ég talað, hvert get ég farið o.s.frv.

Það er ekki auðvelt að fara á fætur hvern einasta dag og vita ekki hvort sonurinn sé enn á lífi, hvernig honum líði, hvort ég þurfi að fara með hann á bráðamóttökuna þar sem læknir neitar að gera nokkuð fyrir hann annað en að gefa honum 2 Parkodin og hringja á geðlækni. Hann er og hefur alltaf verið heill á geði og geðlæknir gat ekki aðstoðað í þessum hræðilegu verkjaköstum.

Að þurfa að berjast, krefjast þess að hann fengi aðstoð, horfa á hann engjast um í 2-3 klst. á bráðamóttökunni án þess að nokkur vilji væri til staðar til að gera neitt fyrr hann, oft fengum við að heyra frá læknum að það yrði ekkert gert fyrir hann. Martröð nær ekki einu sinni yfir það sem við gengum í gegnum. Öll fjölskyldan. 3 ár er langur tími og líðanin eftir því, stanslaus streita, hræðsla, kvíði, vanmáttur, endurupplifun á atburðum, sem endaði með áfallastreituröskum og það var bara eftir fyrsta árið!

Bestu þakkir til allra sem hafa haft samband eftir viðtalið á N4, það er mikilvægt að tala um þessa hluti og alveg ljóst að því miður eru margir sem hafa svipaða lífsreynslu, allt of margir. Fyrir ykkur sem hafið ekki séð viðtalið, það er á heimasíðunni minni, hér.

Í dag er sonur minn heilbrigður og ég búin að bæta við menntunina til að geta hjálpað fólki sem er að takast á við erfiða hluti í lífinu og þeim sem vilja breyta sínu lífi, setja sér ný markmið og verða besta útgáfan af sér.

Ég er eini RIM leiðbeinandinn á landinu og eini Canfield þjálfinn. RIM stendur fyrir Regenerating Images in Memory, að endurgera minningar í minni.

Við getum nefnilega leyst upp neikvæðar tilfinningar og aukið jákvæðu tilfinningarnar í líkamanum og við getum lært á meðfædda tilfinningalega stýrikerfið okkar. Og þegar við tileinkum okkur þær árangursreglur sem þarf til að ná þangað sem við viljum vera gengur lífið betur.

Reynsla mín í lífi og starfi og menntun mín nýtist einstaklega vel, ég er heilbrigðisstarfsmaður og hef unnið í áratugi við að aðstoða konur og fjölskyldur þeirra að takast á við erfiðleika tengda meðgöngu og fæðingu.

Nú aðstoða ég þá sem eru að takast á við erfið verkefni í lífinu og þá sem vilja ná árangri á hvaða sviði sem er, fara út fyrir þægindarammann, hámarka getu sína, fá meiri fókus, lífsfyllingu og gleði, geta talað fyrir framan fólk, breyta til. Lífsþjálfun, markþjálfun, árangursþjálfun og RIM.

Á heimasíðunni minni, evaalberts.is geturðu bókað tíma og fengið nánari upplýsingar.